Lífið

Mis­lukkað bón­orð við Gull­foss slær í gegn

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Bónorð sem gekk ekki samkvæmt áætlun.
Bónorð sem gekk ekki samkvæmt áætlun. Samsett

Meðfylgjandi myndskeið, sem sýnir mislukkað bónorð Bandaríkjamanns við Gullfoss, hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum undanfarna daga.

Hátt í 400 þúsund manns hafa horft á myndskeiðið eftir að Jordan McGowan birti það á TikTok síðastliðinn þriðjudag. Bandarísku vefmiðlarnir New York Post og New Rebeat birtu myndskeiðið á dögunum.

„Sjáið þegar þessi kona eyðileggur bónorðsmyndbandið mitt,“ skrifar Jordan við færsluna.

Á myndskeiðinu má sjá þegar unnusti hennar, Sean Munn skellir sér á skeljarnar við Gullfoss og gerir sig tilbúinn til að biðja hennar. Bónorðið mislukkast þó hrapalega þegar annar ferðamaður treður sér inn á myndina á sama augnabliki og freistast þess að ná mynd af fossinum í bakgrunni. Svo virðist sem að boðflennan hafi engu skeytt um það hjartnæma augnablik sem var að eiga sér stað, eða þá verið algjörlega ómeðvituð um það.

Í texta sem birtist með myndskeiðinu tekur Jordan þó fram að í raun hafi henni fundist þessi aðför konunnar spaugileg. „Enginn skaði skeður, það er fyndið að horfa á þetta,“ ritar hún.

En þó svo að hin verðandi brúður hafi getað hlegið að atvikinu þá eru ekki allir netverjar sáttir við þessa framkomu konunnar og í athugasemdum undir myndskeiðinu keppast sumir við að úthúða henni fyrir dónskapinn.

„Hún vissi nákvæmlega hvað var að gerast og hún gerði þetta viljandi,“ skrifar einn.

Þá segist annar sjá fyndnu hliðina á málinu. „En það er áhyggjuefni hvað sumir eru algjörlega ómeðvitaðir um það sem er að gerast í kringum þá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×