Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 en er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki af stjórnvöldum í Belgrad. Þau hafa hvatt 120 þúsund serbneska íbúa Kósovó til að taka afstöðu gegn stjórninni í Pristina.
Þetta er ekki í fyrsta sinn á síðustu misserum sem viðbúnaður hefur verið aukinn hjá hersveitum Serbíu vegna átaka við Kósovó; það gerðist síðast í nóvember þegar stjórnvöld héldu því fram að drónar hefðu verið sendir yfir landamærin frá Kósovó.
Þann 10. desember síðastliðinn settu Serbar í norðurhluta Kósovó svo upp vegatálma til að mótmæla handtöku fyrrverandi lögreglumanns, sem var grunaður um að hafa átt þátt í árásum gegn albönskum lögreglumönnum.
Þessu til viðbótar hefur skotárásum fjölgað.
Vucevic sagði í gær að til að bregðast við ástandinu hefði vopnuðum hermönnum verið fjölgað úr 1.500 í 5.000. Yfirmaður hermála, Milan Mojsilovic, var sendur að landamærunum á sunnudag og sagði ástandið þar flókið og erfitt.
Ástand mála hefur verið sérstaklega viðkvæmt í norðurhluta Kósovó frá því í nóvember, þegar hundruð Serba innan lögreglu- og dómskerfisins gengu frá störfum sínum. Um var að ræða mótmæli gegn ákvörðun stjórnvalda í Kosovo um að banna serbneskum íbúum landsins að nota bílnúmer gefin út í Serbíu.
Fallið var frá ákvörðuninni.
Ana Brnabic, forsætisráðherra Serbíu, sagði í síðustu viku að ríkin væru á barmi vopnaðra átaka.