Lífið

Kristín Sif og Stebbi Jak trúlofuð: „Þúsund sinnum já“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Stefán og Kristín opinberuðu samband sitt í lok júní og eru nú trúlofuð hálfu ári síðar.
Stefán og Kristín opinberuðu samband sitt í lok júní og eru nú trúlofuð hálfu ári síðar. Instagram

Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona á K100, og Stefán Jakobsson, söngvari í Dimmu, eru trúlofuð en parið greindi frá þessum tímamótum á samfélagsmiðlum í gær. Þau hafa verið saman frá því í sumar og trúlofuðu sig um helgina. 

Kristín greindi frá tíðindunum á Instagram í gær. „Hann vaknaði með mér á afmælisdaginn minn og spurði mig “viltu alltaf vera mín” … þúsund sinnum já!“ skrifar Kristín við færsluna þar sem sjá má mynd af hringum þeirra.

Þá greindi Stefán, sem er reglulega kallaður Stebbi Jak, frá tíðindunum á Facebook. „Morgnarnir eru okkar tími, þar sem við ræðum hversdaginn, framtíðina, heima og geima. Í faðmlögum yfir fyrsta kaffibolla dagsins bar ég fram spurninguna: „Viltu vera mín alltaf?“ „Þúsund sinnum já“ var svarið,“ skrifar Stefán.

Annie Mist Þórisdóttir íþróttakona og Svala Björgvinsdóttir söngkona eru meðal þeirra sem óska parinu til hamingju á Instagram.

Trúlofun og afmæli sömu helgina

Í þættinum Ísland vaknar á K100 í morgun greindi Kristín frá því að þau hefðu trúlofað sig um helgina. Sjálf átti hún afmæli 2. Desember og hélt upp á afmæli sitt þessa sömu helgi.

„Þetta var fullkomið. Við vorum bara tvö heima og hann gerði þetta svo vel,“ sagði Kristín í þættinum. „Þetta var geggjuð helgi. Þetta er alla vega besti afmælisdagur sem ég hef nokkurn tímann átt.“

Vísir greindi frá því síðastliðinn júní að Kristín og Stefán væru nýtt par en Kristín hafði skömmu áður greint frá því í Ísland vaknar að hún væri komin á fast. Þau birtu síðan sameiginlega færslu á Instagram þar sem þau sögðust yfir sig ástfangin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×