„Planið var að keyra hraðann upp til þess að þreyta stóru mennina hjá þeim sem skoruðu mikið inn í teig. En á síðustu fimm mínútum eru þessir leikmenn orðnir þreyttir og fóru að klikka sem var planið og það virkaði í kvöld,“ sagði Pétur Ingvarsson og hélt áfram að tala um þreytu Stjörnunnar.
„Við æfum svona, við spilum svona og við vitum hvernig það á að skipta inn á og erum undirbúnir fyrir svona leik eins og þennan.“
Breiðablik tók frumkvæðið í fyrri hálfleik en náði samt ekki að slíta Stjörnuna frá sér sem tókst hins vegar í síðari hálfleik.
„Stjarnan er gott lið og maður slítur Stjörnuna ekki svo auðveldlega frá sér þrátt fyrir að ég myndi vilja það. Robert Turner er einn besti leikmaður deildarinnar og Hlynur er einn farsælasti leikmaður sem hefur spilað körfubolta á Íslandi ásamt því er Stjarnan með fleiri góða leikmenn. Það tók fjörutíu mínútur að slíta þá frá okkur og það var planið.“
Stjarnan byrjaði á að taka ellefu þriggja stiga skot í fyrsta leikhluta og hitta aðeins úr tveimur. En kom það Pétri á óvart að Stjarnan myndi byrja leikinn á þessu.
„Já og nei. Stjarnan hefur verið að hitta vel úr þriggja stiga skotum. Ég bjóst alveg við því að Stjarnan væri með sjálfstraust í skotunum en svona er þetta,“ sagði Pétur Ingvarsson að lokum.