Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. Þar segir að við slátrun úr sjókví 11 við Haganes í Arnarfirði í október síðastliðnum varð ljóst að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir afdrifum rúmlega 81 þúsund laxa hið minnsta.
„Alls hafði 132.976 löxum verið komið fyrir í kvínni í október 2020 og júlí 2021. Skráð afföll voru 33.097 fiskar en í október 2022, þegar slátrun var lokið úr kvínni, reyndist fjöldinn sem kom upp úr kvínni hins vegar vera aðeins 18.315 laxar,“ segir á vef Matvælastofnunar.
Þar segir enn fremur að þegar tölur úr slátruninni í október síðastliðnum lágu fyrir og ljóst var að ekki var hægt að gera grein fyrir afdrifum rúmlega 80 þúsund laxa, hafi Matvælastofnun þegar hafið rannsókn.
Arnarlax var meðal annars krafið um skýringar á misræmi í fóðurgjöf miðað við uppgefinn fjölda fiska í kvínni.
„Kom þá í ljós að veruleg frávik höfðu orðið í fóðurgjöf í kví 11 frá því í júní 2021, eða tveimur mánuðum áður en tilkynnt var um gat á kvínni síðastliðið sumar, sem hefðu átt að vekja sterkar grunsemdir fyrirtækisins um að eitthvað alvarlegt væri á seyði,“ segir á vef stofnunarinnar.
Telur Matvælastofnun að um alvarlegt brot sé að ræða, bæði út frá umfangi og hættu fyrir villta nytjastofna og lífríki, sem og að um er ræða brot sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með betri stjórn og innra eftirliti fyrirtækisins. Matvælastofnun telur að aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar.