Þessi aðgerð þingsins er þó að mestu táknræn þar sem lagaumgjörð Evrópuþingsins inniheldur ekki neinar aðgerðir gegn hryðjuverkaríkjum og Evrópa er þegar að beita Rússa fordæmalausum viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Sjá einnig: „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum“
Frá því innrás þeirra hófst þann 24. Febrúar hafa Rússar gert ítrekaðar árásir á sjúkrahús víðsvegar um Úkraínu. Ein sú frægasta er árásin á barnasjúkrahús í Maríupól í mars. Rússar hafa einnig gert ítrekaðar árásir á orkuinnviði Úkraínu með því markmiði að gera óbreyttum borgurum erfitt með að komast í gegnum veturinn.

Ráðamenn í Kænugarði hafa lengi kallað eftir því Rússland verði skilgreint sem hryðjuverkaríki og einangrað enn frekar vegna linnulausra árása þeirra á óbreytta borgara.Samhliða slæmu gengi Rússa á víglínum Úkraínu hefur þessum árásum fjölgað og umfang þeirra aukist, þar sem Rússar hafa beitt stýriflaugum sínum og eldflaugum að borgara legum skotmörkum.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur neitað því að skilgreina Rússlands sem hryðjuverkaríki. Það vill hann ekki gera þó báðar deildir Bandaríkjaþings hafi samþykkt ályktanir þar að lútandi.
Í Evrópu hafa þing Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands skilgreint Rússland sem hryðjuverkaríki.
Rústuðu fæðingardeild með eldflaug
Í nótt lenti rússnesk eldflaug á fæðingardeild sjúkrahúss í Vilniansk í suðurhluta Úkraínu. Tveggja daga gamalt barn lést í árásinni en björgunarsveitum tókst að bjarga móðurinni og einum lækni úr rústum fæðingardeildarinnar.
On the night of November 23, the Russians attacked Vilnyansk, Zaporizhzhia region. A two-story building of the maternity ward was destroyed. A woman in labor with a newborn baby and a doctor were found under the rubble. The woman and the doctor survived, but the baby died
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) November 23, 2022
SESU pic.twitter.com/6ClELRCbVK
Blaðamenn AP fréttaveitunnar segja skemmdir á orkuinnviðum Úkraínu hafa gert heilbrigðisstarfsmönnum lífið erfitt. Í Kherson-borg þurfi læknar til að mynda að vinna í myrkri og nota höfuðljós og síma til að skera fólk upp.
Rússar hafa verið að gera stórskotaliðsárásir á borgina undanfarna daga en einn viðmælandi fréttaveitunnar sagði frá því að þrjú börn sem særst hefðu í þessum árásum hefði ratað á sjúkrahús hans. Þau hafi verið mikið slösuð og meðal annars með áverka á höfði og innvortis blæðingar.