Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá yfir Hafnasand en þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna þá tíð þegar leiðin til Þorlákshafnar lá um sandauðn.

„Á gamla veginum þá bara dró í sandskafla. Og það var eins gott að bílarnir biluðu ekki á leiðinni því þá voru þeir bara tilbúnir undir málningu aftur. Þeir sandblésu bara,“ segir Katrín Stefánsdóttir, veitingahússeigandi í Þorlákshöfn, þegar hún rifjar upp hvernig þetta var áður.

Krakkarnir í þorpinu þurftu ekki sandkassa. Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, minnist þess þegar þurfti að moka sand frá hurðinni heima hjá sér á vorin, sumrin og haustin, og svo snjó á veturna.
En svo hófst landgræðsluátak. Grétar sýnir okkur Hafnasand en hann er núna algróinn.

„Til þess að gera bæinn byggilegri þá þurfti að ráðast í mikla landgræðslu hérna. Og eins og sjá má hefur það gengið ofboðslega vel,“ segir Grétar Ingi.
Með samningi sveitarfélagsins Ölfuss, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar fyrir sex árum var svo ákveðið að hefja viðamikla skógrækt.

Til að menn átti sig á umfanginu bendir Grétar á að skógræktarsvæðið nái alveg frá Ölfusá og vestur út í Selvog. Allt höfuðborgarsvæðið kæmist þar fyrir. Þar segir hann að Ölfusingar fái sína Heiðmörk.
„Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé langstærsta skógræktarverkefni sem er í gangi á Íslandi í dag,“ segir formaður bæjarráðs Ölfuss.
Einnig var fjallað um Þorláksskóga í þættinum Um land allt sem nálgast má á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: