Enski boltinn

Mold­ríkur Ind­verji vill kaupa Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool er til sölu.
Liverpool er til sölu. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Mukesh Ambani, áttundi ríkasti maður heims að mati Forbes, hefur áhuga á að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Á dögunum opinberaði Fenway Sports Group, fjárfestingahópurinn sem á Liverpool, að félagið væri til sölu. Um er að ræða óvænt tíðindi þar sem FSG hefur átt félagið frá árinu 2010 og undanfarin ár hafa verið þau sigursælustu hjá félaginu svo áratugum skiptir.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hver gæti keypt félagið en það virðist aðallega sem fjárfesta frá Bandaríkjunum eða auðjöfrar – með pólitísk tengsl – frá Mið-Austurlöndum hafi efni á félögum í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir.

Mukesh Ambani er samkvæmt enska miðlinum Mirror að íhuga kaup á félaginu en hann er metinn á 90 milljarða punda samkvæmt Forbes og er annar ríkasti maður Indlands. 

Ambani á nú þegar Mumbai Indians, sigursælasta krikketlið Indlands, og er því ekki alveg blautur á bakvið eyrun þegar kemur að því að eiga íþróttafélag.

FSG borgaði í kringum 300 milljónir punda fyrir Liverpool árið 2010 en talið er að verðið nú sé um og yfir fjóra milljarða punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×