Enski boltinn

Enginn Klopp á hliðar­línunni gegn Sout­hampton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Atvikið sem orsakaði það að Klopp verður í banni á morgun.
Atvikið sem orsakaði það að Klopp verður í banni á morgun. Laurence Griffiths/Getty Images

Fyrsta verkefni Nathan Jones sem þjálfara Southampton verður talsvert auðveldara þar sem það verður enginn Jürgen Klopp geltandi á hann þegar Liverpool tekur á móti Dýrlingunum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Á morgun hefst síðasta umferð ensku úrvalsdeildarinnar áður en farið verður í rúmlega mánaðarlangt frí svo hægt sé að spila heimsmeistaramót í Katar. Meðal leikja morgundagsins er viðureign Liverpool og Southampton en gestirnir eru nýbúnir að ráða nýjan stjóra.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, verður hins vegar upp í stúku þar sem hann var dæmdur í eins leiks bann fyrir að urða yfir aðstoðardómara í leik Liverpool og Manchester City á dögunum.

Enska knattspyrnusambandið sker ekki úr um hvort þjálfarar þurfi að fara í bann eftir að þeir eru sendir upp í stúku. Sérstök nefnd tekur slík mál fyrir og sú nefnd dæmdi Klopp upphaflega ekki í bann. Liverpool átti að greiða 30 þúsund pund í sekt og þar með væri málið úr sögunni.

Enska sambandið hélt nú aldeilis ekki og áfrýjaði málinu. Eftir að málið var tekið fyrir á nýjan leik var ákveðið að dæma Klopp í eins leiks bann sem og sekta hann um 30 þúsund pund. Þá þarf hann að passa sig í framtíðinni.

Liverpool hefur lýst yfir óánægju sinni með framkvæmdina þar sem það kom ekki í ljós fyrr en innan við 24 tímum fyrir leik að Klopp yrði í banni á morgun, laugardag.

Liverpool er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 19 stig á meðan Southampton er í 18. sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×