Mennirnir tveir eru frá Belgíu en voru dæmdir til fangelsisvistar af Hollenskum dómstólum. Einn mánuður fangelsisdómsins er sagður skilorðsbundinn. Þessu greinir Reuters frá.
Annar mannanna límdi höfuð sitt á gler sem verndaði málverkið en þetta er gert til þess að vekja athygli á umhverfismálum og áhrifum hlýnunar jarðar á plánetuna. Mennirnir framkvæmdu verknaðinn í nafni umhverfisaðgerðahópsins „Just Stop Oil Belgium.“ Aðgerðin eigi að kalla fram tilfinningar og viðbrögð sem vonast sé eftir að fólk sýni umhverfismálum.
Verknaðurinn er sagður ekki hafa skemmt verkið sjálft en rammi verksins, sem sé frá 19. öld hafi skemmst.
Þrír voru handteknir á vettvangi og bíður einn eftir réttarhöldum en hann er sagður hafa mótmælt þeirri flýtimeðferð sem málið fékk.
Þetta er ekki eina tilfelli þess að listaverk hafi verið miðpunktur mótmæla sem þessara en þann 26. október höfðu bresku „Just Stop Oil“ samtök mótmælt aðgerðarleysi í umhverfismálum 26 daga í röð. Mótmælin hafa þó átt sér stað í lengri tíma. Belgísku samtökin eru sögð ótengd þeim bresku.
Heimsfræg málverk hafa verið einn aðal miðpunktur aðgerða bresku samtakanna en mótmælendur hafa kastað kartöflumús á verkin ásamt því að líma hina ýmsu líkamsparta sína á verkin til þess að erfitt sé að fjarlægja þau af vettvangi.