Erlent

Minnst 45 látnir vegna óveðurs á Filippseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn strangæslu Filippseyja komu þessum börnum til aðstoðar í gær. Á myndinni má glögglega sjá hve mikil flóðin hafa verið en í þessu tilfelli náði það upp undir þak húsa.
Starfsmenn strangæslu Filippseyja komu þessum börnum til aðstoðar í gær. Á myndinni má glögglega sjá hve mikil flóðin hafa verið en í þessu tilfelli náði það upp undir þak húsa. AP/Strandgæsla Filippseyja

Minnst 45 eru látnir og sextíu er saknað eftir skyndiflóð og aurskriður sunnanverðum á Filippseyjum í kjölfar gífurlegrar rigningar. Yfirvöld sögðu í fyrstu að minnst 72 hefðu látið lífið en lækkuðu töluna fljótt.

Útlitið er hvað verst í bænum Kusiong í Maguindanao-héraði. Tugir húsa eru sögð hafa orðið undir aurskriðum og eru allt að sextíu manns sögð hafa verið í þessum húsum. AP fréttaveitan segir að í gærkvöldi hafi verið búið að finna ellefu lík, þar af flest börn.

Verið er að flytja gröfur og leitartæki til þorpsins og standa björgunarstörf yfir.

Í einhverjum þorpum flæddi svo mikið að íbúar þurftu að fara upp á þök húsa sinna og bíða eftir björgun.

Reuters segir að enn sé von á fleiri flóðum og aurskriðum á Filippseyjum þar sem rigning sé enn mikil. Fréttaveitan hefur eftir háttsettum embættismanni í Maguindanao-héraði að hann vonist til þess að fjöldi látinna muni ekki hækka mjög mikið á komandi dögum.

Um tuttugu óveður ganga yfir Filippseyjar á ári hverju. Í desember gekk mikið óveður yfir eyjurnar en þá dóu 407 og rúmlega 1.100 slösuðust.

Aurskriður hafa einnig valdið gífurlegum skaða eftir rigningarnar.AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×