Útlitið er hvað verst í bænum Kusiong í Maguindanao-héraði. Tugir húsa eru sögð hafa orðið undir aurskriðum og eru allt að sextíu manns sögð hafa verið í þessum húsum. AP fréttaveitan segir að í gærkvöldi hafi verið búið að finna ellefu lík, þar af flest börn.
Verið er að flytja gröfur og leitartæki til þorpsins og standa björgunarstörf yfir.
Í einhverjum þorpum flæddi svo mikið að íbúar þurftu að fara upp á þök húsa sinna og bíða eftir björgun.
Reuters segir að enn sé von á fleiri flóðum og aurskriðum á Filippseyjum þar sem rigning sé enn mikil. Fréttaveitan hefur eftir háttsettum embættismanni í Maguindanao-héraði að hann vonist til þess að fjöldi látinna muni ekki hækka mjög mikið á komandi dögum.
Um tuttugu óveður ganga yfir Filippseyjar á ári hverju. Í desember gekk mikið óveður yfir eyjurnar en þá dóu 407 og rúmlega 1.100 slösuðust.
