Formúla 1

Lewis Hamilton vill semja á ný og vera áfram í „fjölskyldunni sinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Hamilton vill halda áfram að keyra fyrir Mercedes.
Lewis Hamilton vill halda áfram að keyra fyrir Mercedes. Getty/Peter J Fox

Lewis Hamilton hefur átt erfitt tímabil í formúlu eitt en hann er ekkert á því að hætta og svo gott sem staðfesti nýjan samning við Mercedes liðið.

Hamilton er sem stendur í sjötta sæti í heimsmeistarakeppni ökumanna með 198 stig eða 193 stigum færra en Max Verstappen sem er búinn að tryggja sér heimsmeistaratitilinn annað árið í röð.

Hamilton hefur ekki náð að vinna kappakstur á þessu tímabili en hann hefur komist sjö sinnum á pall þar af þegar hann varð annar í bandaríska kappakstrinum um síðustu helgi.

Það bjuggust sumir við því að Hamilton annað hvort flytti sig yfir í annað lið eða myndi hætta í formúlunni eftir þetta vandræðaár en það er engin uppgjöf í kappanum.

„Við munum gera nýjan samning,“ sagði hinn 37 ára gamli Lewis Hamilton við útvalda fjölmiðla eins og motorsport.com og BBC. Hann hefur orðið sjö sinnum heimsmeistari þar af í fjögur ár í röð frá 2017 til 2020.

„Við munum setjast niður og ræða þetta á næstu mánuðum. Markmið mitt er að halda áfram að keyra fyrir Mercedes. Ég hef verið hjá Mercedes síðan ég var þrettán ára gamall og þetta er fjölskyldan mín,“ sagði Hamilton.

Toto Wolff, yfirmaður Mercedes, hefur talað um að liðið ætli að bjóða Hamilton fimm ára samning en það er þó ekki öruggt að hann sjálfur haldi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×