West og Adidas hafa átt í samstarfi um svonefnda Yeezy-fatalínu rapparans. Samstarfið hefur súrnað verulega undanfarin misseri. West sakaði fyrirtækið um að standa ekki við samninga og um að stela hönnun hans.
Ekki tók betra við þegar West byrjaði að ausa svívirðingum yfir gyðinga á samfélagsmiðlum. Twitter- og Instagram-reikningar hans liggja nú niðri vegna brota hans á notendaskilmálum þeirra. Adidas hefur legið undir þrýstingi um að fjarlægja sig West.
Bloomberg-fréttastofan segir að Adidas muni mögulega kynna ákvörðun sína um að slíta samstarfinu strax í dag. Fyrirtækið hefur haft samstarfið við West til skoðunar eftir að ekki tókst að leysa málið á bak við tjöldin fyrr í þessum mánuði.
Áður hafa fatarisinn Gap og tískuhúsið Balenciaga slitið samstarfi við West.
Reuters-fréttastofan segir að Yeezy-vörulínan skapi um einn og hálfan milljarð evra í tekjur fyrir Adidas, jafnvirði hátt í 215 milljarða íslenskra króna. Það sé um sjö prósent af heildartekjum fyrirtækisins.
Uppfært 12:10 Adidas tilkynnti formlega að fyrirtækið hefði slitið samstarfi við West. Í yfirlýsingu fyrirtækisins sagði það að það umbæri hvorki gyðingahatur né annars konar hatursorðræðu.
„Nýleg ummæli og gjörðir Yes hafa verið óásættanleg, andstyggileg og hættuleg og þau stangast á við gildi fyrirtækisins um fjölbreytni, gagnkvæma virðingu og sanngirni,“ sagði í yfirlýsingunni.