Viðskipti innlent

Ó­vænt hækkun í­búða­verðs í síðasta mánuði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fasteignamarkaðurinn hefur verið í brennidepli undanfarin misseri.
Fasteignamarkaðurinn hefur verið í brennidepli undanfarin misseri. Vísir/Vilhelm

Vísitala íbúðaververðs hækkaði á milli ágúst og september. Greiningardeild Landsbankans telur þessa hækkun vera nokkuð óvænta. Skýringin virðist eiga sér rætur að rekja til hækkunar á sérbýli.

Vístitalan umrædda hækkaði um 0,8 prósent á milli ágúst og september. Í nýrri Hagsjá Landsbankans kemur fram að þessi mæling komi nokkuð á óvart þar sem mælingar milli mánaða, mánuðinn á undan, hafi sýnt lækkun.

Í Hagsjánni er tekið fram að þessi hækkun virðist helst skýrast af hækkun á sérbýli, þar sem lítilsháttar lækkun hafi orðið á fjölbýli. Bendir Landsbankinn á að mikið flökt sé á mælingum á sérbýli milli mánaða. Varasamt sé að lesa mikið í þær tölur.

Nánar er farið í saumana á sveiflurnar á sérbýli í greiningu Íslandsbanka sem birtist í vikunni. Þar segir að sveiflur á verði sérbýla megi rekja til þess að færri kaupsamningar liggji að baki þeim mælingum en til að mynda fjölbýlum.

„Alla jafna eru kaupsamningar á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu frekar fáir samanborið við íbúðir í fjölbýli eins og gefur að skilja. En á undanförnum mánuðum hafa þeir verið sérstaklega fáir. Í ágúst var 69 kaupsamningum á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og í júlí voru þeir 76 en tölur fyrir septembermánuð hafa ekki verið birtar. Á síðustu 10 árum hafa kaupsamningar á sérbýlum verið að meðaltali 107 á mánuði,“ segir á vef Íslandsbankans.

Fram kom í vikunni um að merki séu um að fasteignamarkaðurinn fari kólnandi eftir miklar hækkanir síðustu missera. Þannig hefur verulega dregið úr hlutfalli íbúða sem seljast yfir ásettu verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×