„Það eru auðvitað miklar breytingar í kortunum hjá Samfylkingunni og við eigum mikil sóknarfæri. Ég sé að það eru spennandi breytingar fram undan og við erum að fá nýjan formann sem mér finnst mjög spennandi og ég bara tel að reynslan mín geti nýst vel í forystusveit flokksins og breikkað ásýnd hennar. ÉG er náttúrulega mikil landsbyggðarkona og staðan er auðvitað sú að í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, þá eigum við ekki þingmann og mér finnst það skipta máli að ásýnd flokksins sé þannig að landsbyggðin eigi sinn fulltrúa í æðstu stjórn flokksins.“
Arna Lára kveðst hrifin af áherslum Kristrúnar Frostadóttur sem er ein í framboði til formanns. Hún hefur lagt fram sína sýn og sagt mikilvægt að flokkurinn leggi meiri áherslu á kjarnamál Jafnaðarmanna.
„Það er auðvitað kannski ástæðan fyrir því að ég er líka að bjóða mig fram. Ég tengi mjög vel við þennan málflutning. Við þurfum að leggja ofuráherslu á þessi kjarnamál Jafnaðarmanna og kannski einfalda svolítið málflutninginn og það er bara eitthvað sem ég tengi mjög vel við og er til í að leggja mitt lóð á vogarskálina svo það geti orðið“.
Alexandra, sem einnig er í framboði, segist leggja áherslu á jafnréttismálin.
„Undanfarin tvö ár hef ég líka verið rödd þeirra mála sem sumir segja að séu mjúk; það er mér hjartans mál að femínismi verði áfram kjarninn í hugmyndafræði Samfylkingarinnar. Við eigum svo sannarlega að vera stolt af því að vera jafnaðarmenn en enn fremur eigum við að vera stolt af sögulegri arfleifð flokksins. Líkt og ég hef sagt áður þá þykir mér þar einna mikilvægust sú sögulega arfleifð sem flokkurinn fékk í vöggugjöf frá Kvennalistanum. Þá er ekki bara mikilvægt að stefna flokksins sé sköpuð með femínisma að leiðarljósi heldur á stjórnmálamenningin okkar að litast af henni.“
Alexandra segir þá nauðsynlegt að í stjórn sé einstaklingur með reynslu.
„Ekki síst í ljósi þeirrar miklu endurnýjunar sem er að verða á forystu flokksins. Ég er reynslumikil þrátt fyrir ungan aldur og finnst mikilvægt að stjórn flokksins sé fjölbreytt. Ég er af erlendum uppruna og tel mikilvægt að ólíkar raddir heyrist í forystunni og finnst það við hæfi þar sem Samfylkingin er alþjóðasinnaður stjórnmálaflokkur.“
Það hafi verið henni lærdómsríkt að starfa sem ritari flokksins síðustu tvö ár.
„Ég tel mikilvægt að í embættinu sé einstaklingur sem geti sinnt svokölluðu stofnanaminni flokksins, en það er ekki síður mikilvægt að UJ eigi sinn fulltrúa í æðstu stofnun flokksins. Kannanir hafa enda sýnt að Samfylkingin er flokkur unga fólksins og því eðlileg krafa að ungliðahreyfing flokksins eigi fulltrúa unga og róttæka fólksins í stjórn.“