Ummælin lét forsetinn falla í viðtali við CNN í gær en aðspurður sagði hann óábyrgt að tjá sig um það hvernig Bandaríkin og bandamenn myndu mögulega bregðast við ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.
Pútín hefði misreiknað dæmið þegar hann réðist inn í Úkraínu, haldandi að Rússum yrði tekið með opnum örmum. Biden sagðist þó ekki telja Rússlandsforseta myndu grípa til þess örþrifaráðs að nota kjarnorkuvopn en allt tal um notkun þeirra væri óábyrgt og gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér.
Pútín gæti ekki haldið áfram að tala um notkun kjarnorkuvopna eins og notkun þeirra væri rökrétt.
Biden vildi ekki svara því hvar „rauða línan“ lægi en þegar hann var spurður að því hvort hermálayfirvöld í Pentagon hefðu verið beðin um að kanna öll möguleg viðbrögð sagði forsetinn að þess hefði ekki verið þörf og vísaði þannig til þess að möguleikinn á kjarnorkustríði væri alltaf til skoðunar.
Þá sagðist forsetinn ekki sjá tilgang með því að setjast niður með Pútín á næsta fundi G20-ríkjanna í Indónesíu í nóvember, nema þá mögulega til að ræða lausn körfuknattleikskonunnar Brittney Griner.