Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu í morgun þar sem haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra að fyrirkomulaginu hafi verið breytt fyrr á þessu ári þannig að farþegar væri aftur fyrst ávarpaðir í kallkerfi flugvélanna á íslensku.
„Verið velkomin heim,“ er því aftur það fyrsta sem farþegar heyra í kallkerfinu eftir lendingu.
Fram kemur í frétt blaðsins að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, hafi fundað með Boga fyrr á árinu þar sem hún lýsti yfir óánægju með að farþegar væru ekki boðnir velkomnir heim á íslensku líkt og áður var.
Bogi segir að það sé gott að geta skipt um skoðun og að Lilja hafi ekki verið sú eina sem hafi kvartað vegna málsins.