„Úkraínski fáninn flýgur yfir Lyman,“ sagði Selenskí í ávarpi seint í gærkvöldi. Hann bætti við að á undanfarinni viku hefðu úkraínskum fánum fjölgað á Donbas-svæðinu og eftir viku yrðu þeir enn fleiri.
„Fáni okkar verður alls staðar,“ sagði Selenskí.
Ráðgjafi Selenskís segir Rússa hafa misst um 1.500 hermenn í Lyman. Þær tölur hafa þó ekki verið staðfestar og þar að auki liggja engar upplýsingar fyrir um mannfall meðal Úkraínumanna. Selenskí sjálfur birti stutt myndband klukkan tíu í morgun að íslenskum tíma, þar sem hann sagði Úkraínumenn hafa náð fullri stjórn á Lyman.
Hingað til hefur verið óljóst hvort margir rússneskir hermenn hafi verið skildir eftir í borginni þegar rússneski herinn hörfðaði þaðan.
Sjá einnig: Lyman er í höndum Úkraínumanna
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti formlega yfir ólöglegri innlimun fjögurra héraða Úkraínu á föstudaginn. Það gerði hann í kjölfar atkvæðagreiðslu sem haldin var í snatri eftir að Rússar voru reknir frá Kharkív-héraði í síðasta mánuði.
Ráðamenn í Rússlandi og leppstjórar þeirra á hernumdum svæðum í Úkraínu segja nánast alla íbúa hafa valið innlimun í Rússland.
Sjá einnig: Kadyrov kallar eftir herlögum og notkun kjarnorkuvopna
Í ávarpi sínu í gær sagði Selenskí að þessi atkvæðagreiðsla hefði verið sjónarspil Í fyrsta lagi hefðu flestir íbúar svæðisins flúið undan hersveitum Rússlands og margir af þeim sem urðu eftir greiddu atkvæði undir eftirliti rússneskra embættismanna og vopnaðra hermanna.

Sagðir hafa náð árangri í Kherson
Fregnir hafa borist af því að Úkraínumönnum hafi einnig vegnað vel í Kherson-héraði í suðurhluta landsins á undanförnum dögum og sérstaklega í nótt.
Úkraínumenn hófu umfangsmikla gagnárás gegn Rússum í héraðinu í sumar en í aðdraganda hennar eru Rússar sagðir hafa flutt margar af sínum reyndustu og bestu hersveitum á svæðið norður af Dniproá. Sókn Úkraínumanna þar er sögð hafa verið verulega kostnaðarsöm og víglínurnar hafa oft lítið hreyfst yfir löng tímabil.
Þá hafa Úkraínumenn reynt að einangra rússneska hermenn á norðubakka Dnipro með HIMARS-flugskeytakerfum og annarskonar árásum á skotfærageymslur og brýr yfir Dniproá.
Nú hafa borist fregnir af því að Úkraínumönnum hafi tekist að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa
Á meðfylgjandi korti frá hugveitunni Institute for the study of war má sjá grófa mynd af því hvernig staðan var í gær. Úkraínumenn eru sagðir hafa brotið sér leið í gegnum varnir Rússa í austurhluta Kherson og munu þeir hafa sótt til suðurs með Dniproá og frelsað nokkrar byggðir þar.
Southern Axis Update:#Ukrainian military officials reiterated on October 1 that Ukrainian troops are continuing to conduct counter-offensive operations in #Kherson Oblast and setting conditions for future advances in various areas along the frontline.https://t.co/3w0ZUI6XUv pic.twitter.com/6kaf8ggxIS
— ISW (@TheStudyofWar) October 2, 2022