Útgefandi Mantel staðfestir andlátið í samtali við breska fjölmiðla.
Mantel hlaut Booker-verðlaunin fyrir Wolf Hall, fyrstu bókina í Thomas Cromwell-bókaflokknum sem kom út árið 2009, og svo aftur fyrir framhaldssöguna Bring Up the Bodies sem kom út árið 2012.
Í yfirlýsingu frá útgefandanum HarperCollins segir að Hilary hafi látist í faðmi fjölskyldu og vina. Andlátið hafi þó borið brátt að.
Wolf Hall-sögurnar eru sögulegar skáldsögur um uppgang Thomas Cromwell innan bresku konungshallarinnar á tímum Hinriks áttunda konungs.
Þriðja og síðasta bókin í flokknum, The Mirror and the Light, var gefin út árið 2020.
Þríleikurinn hefur selst í rúmlega fimm milljónum eintaka og hafa bækurnar verið þýddar á rúmlega fjörutíu tungumál.