Körfubolti

„Gott að vera komin heim og gaman að vera farin að spila körfubolta aftur“

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var fegin því að vera komin aftur á körfuboltavöllinn.
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var fegin því að vera komin aftur á körfuboltavöllinn. Vísir/Diego

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir átti skínandi leik fyrir Valskonur í kvöld, en þetta var hennar fyrsti leikur á Íslandi síðan 2018. Elín hefur síðustu fjögur ár ár spilað í háskólaboltanum vestanhafs með liði Tulsa. Þá meiddist hún einnig illa í janúar svo að þetta var fyrsti leikurinn hennar í langan tíma.

Það var þó ekki að sjá í kvöld að hún væri ryðguð en hún skilaði 16 stigum og fjórum fráköstum og var næst stigahæst á vellinum í kvöld.

Blaðamaður bauð Elínu hjartanlega velkomna heim, ekki amaleg byrjun þetta?

„Já takk fyrir það. Gott að vera komin heim og gaman að vera farin að spila körfubolta aftur, og skemmtilegur leikur!“

Það er sennilega alltaf skemmtilegt að vinna tæplega 40 stiga yfirburðasigur. Blaðamaður hafði þó orð á því að leikurinn hefði nú ekki verið mjög spennandi á að horfa fyrir hlutlausa áhorfendur, en Elín gaf lítið fyrir það.

„Hvað meinarðu? Mér fannst hann skemmtilegur allan tímann! Gaman að spila körfubolta, og ég vona að áhorfendur hafi haft gaman af honum líka. Þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsti leikur tímabilsins þá fannst mér ágætis tempó í honum og ég er ánægð með það.“

Valskonur náðu vissulega að keyra upp góðan hraða í þessum leik og settu mörg stig á töfluna. Var þessi sigur einhvern tímann í hættu?

„Við spilum bara okkar körfubolta. Ég er bara ánægð með að okkar leikur kom svona vel út í dag. Við eigum auðvitað eftir að vinna fullt í okkar hlutum líka. Þetta eru bara 5 á móti 5 að spila körfubolta, þetta er gaman.“

Þessi leikur var eins og áður sagði fyrsti leikur Elínar í dágóðan tíma. Hún hefur engu gleymt?

„Bara lært meira, er það ekki? Þetta er bara ógeðslega skemmtilegt og þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×