Fyrst stóð til að athöfnin yrði haldin utan dyra í varnargarði við Flateyri en sökum hellidembu færðist hún í göng rétt hjá og segja brúðhjónin að það hafi jafnvel bara verið betur heppnað en hitt.
Blaðamaður tók púlsinn á brúðinni, Glódísi, og ræddi við hana um stóra daginn, ástina og einstakan brúðarkjól hennar sem hún gerði virkilega góð kaup á.
4000 krónu brúðarkjóll
Glódís segist hafa verið frekar róleg í leitinni að brúðarkjólnum og var ekki alveg viss um hvað hún vildi.

„Ég var svo einn daginn að labba Garðastrætið að sækja drenginn minn í leikskólann og labba fram hjá Hertex, verslun Hjálpræðishersins. Þá var greinilega nýkomin sending frá einhverri hefðarfrú og það var verið að hengja upp nokkra síðkjóla. Ég rak augun í þennan og þurfti varla að máta hann,“ segir Glódís og bætir við að kjóllinn hafi kostað hana 4000 krónur. „Hann birtist bara nákvæmlega þarna og ég vissi líka að ég vildi ekki eyða einhverjum 100 þúsund köllum í hann.“
Elín, nágrannakona móður Glódísar, starfar sem klæðskeri og minnkaði kjólinn svo hann smell passaði á brúðina. „Þetta var allt mjög heimilislegt og fallegt.“

Yndislegur staður
Brúðkaupið hafði staðið til í tvö ár en Covid hafði áhrif á að þau neyddust til að fresta því. Þau tóku þó forskot á sæluna síðastliðið sumar.
„Við ætluðum að gifta okkur fyrir tveimur árum síðan en við giftum okkur í fyrra á Flateyri.“ Þau fengu mæður sínar til að vera með þeim í lítilli athöfn.
„Steinþór og vinir hans Ásgeir Guðmundsson og Hlynur Helgi voru beðnir um að sjá um veitingastaðinn og barinn Vagninn yfir síðasta sumar.“ Eftir að hafa eytt öllu sumrinu á Flateyri átti staðurinn hjörtu brúðhjónanna.
„Við höfðum áður komið á Flateyri og vissum hvað þetta var yndislegur staður þannig að við stukkum til og áttum eitt besta sumar í manna minnum.“

Síðasta sumar fóru þau svo að hugsa hvar stóra athöfnin ætti að vera.
Hellidemba
„Athöfnin átti fyrst að vera utan dyra inn í varnargarðinum hjá snjóflóðavörnunum en það kom hellidemba þannig að við færðum allt inn í göngin. Við létum það virka og það kom eiginlega bara betur út,“ segir Glódís.

Úrvals lið söngvara söng í athöfninni og má þar nefna hljómsveitina GÓSS, þau Sigríði Thorlacious, Sigurð Guðmundsson og Guðmund Óskar ásamt hluta úr hljómsveitinni Hjaltalín þar sem Högni söng ásamt Sigríði og Guðmundi. Glódís segir að tónlistin hafi hljómað virkilega vel í göngunum.

Allar hendur nýttar
Dagurinn var draumi líkastur og byrjaði með sól og blíðu.
„Við vöknuðum um 9 og fórum að týna blóm, það er allt í fallegum blómum á Flateyri,“ segir Glódís. Fyrri parti dags var eytt í huggulegheit þar sem hún fór meðal annars með son sinn í sund og svo kláruðu þau að græja salinn. „Þar voru allar hendur nýttar og vinir okkar hjálpuðu okkur að græja það á svona hálftíma.“

Athöfnin hófst klukkan fjögur og var það Atli Már Steinarsson sem sá um athöfnina. Allir hjálpuðust að við að hringja á milli svo það færi ekki fram hjá neinum að athöfnin hefði verið færð inn í göngin. Að henni lokinni hófust veisluhöld þar sem Ásgeir Guðmundsson var veislustjóri og fólk dansaði saman fram á rauða nótt.

Hér má sjá fleiri myndir úr brúðkaupinu:









