Ákærur mannanna, sem allir hafa pólskt ríkisfang og komu hingað til lands frá Póllandi, voru birtar í Lögbirtingarblaðinu í gær en það er gert þegar ekki er hægt að birta fólki ákæru með hefðbundnum hætti. Fréttablaðið greinir fyrst frá.
Þeir eru allir ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningi Oxycontins og einn þeirra morfínlyfsins Contalgins að auki. Þeir höfðu á bilinu 792 til 857 áttatíu milligramma töflur í fórum sér en það er nokkuð mikið magn sterkra ópíóíða.
Mennirnir beittu ýmsum aðferðum við innflutninginn einn flutti töflurnar í raksápubrúsa, annar í tveimur kaffibaunapokum, sá þriðji í sælgætispoka og loks tveir sem báru töflurnar innan nærfata.
Fyrstu tveir mennirnir komu hingað til lands 25. mars síðastliðinn með sömu flugvél frá Gdansk. Viku síðar kom sá þriðji, einnig frá Gdansk. Tveimur dögum seinna kom sá fjórði frá Katowice en sá er aðeins nítján ára gamall. Loks kom sá fimmti og síðasti frá Gdansk þann 16. apríl síðastliðinn.