Þetta segir Ragnar Guðmundsson rannsakandi hjá flugsviði Rannsóknarnefndar í samtali við fréttastofu. Ragnar kom til Akureyrar í gær ásamt öðrum rannsakanda frá nefndinni og fóru þeir að nauðlendingarstaðnum síðdegis í gær. Hann var nýkominn af vettvangi þegar fréttastofa náði af honum tali.
Magnús Pálmar Jónsson sigmaður hjá Landhelgisgæslunni lýsti því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að aðstæður á nauðlendingarstaðnum hafi verið góðar. Þyrla Gæslunnar var kölluð út til aðstoðar mönnunum, sem voru í flugvél af gerðinni ICP Savannah S, þar sem þeir höfðu lent í mikilli hæð og voru ekki útbúnir í mikla göngu.
Ragnar segir að flugvélin sé í góðu ásigkomulagi en upp hafi komið tæknileg bilun. Flugmaðurinn hafi tekið rétta ákvörðun að lenda þar sem hann lenti. Þá sé um að ræða samskonar vél og nauðlenti á ísilögðu Þingvallavatni í mars 2020.