Sport

Hættir við að keppa á HM af því að keppnin fer fram á sunnudegi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alina McDonald tryggði sér farseðilinn á HM í frjálsum um helgina en gaf hann strax frá sér af trúarástæðum.
Alina McDonald tryggði sér farseðilinn á HM í frjálsum um helgina en gaf hann strax frá sér af trúarástæðum. Getty/Steph Chambers

Bandaríski stangarstökkvarinn Alina McDonald vann sér um helgina sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í næsta mánuði með því að ná öðru sæti á bandaríska meistaramótinu. Hún mun þó ekki þiggja það.

McDonald gaf sætið strax frá sér og það af trúarlegum ástæðum.

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum fer fram í Eugene í Oregon fylki frá 15. til 24. júlí en vandamálið er að stangarstökkskeppni kvenna fer fram á sunnudegi.

Alina McDonald neitar að keppa á sunnudögum, sem er hvíldardagur samkvæmt hennar trú, og verður því ekki með.

Alina hefur aldrei æft eða keppt á sunnudegi á sínum ferli. Hún er 24 ára gömul og frá Norður-Karólínufylki.

McDonald stökk 4,65 metra í stangstökkinu á laugardaginn og varð önnur á eftir Sandi Morris. Þetta var besti árangur Alinu á árinu.

„Ég gæti beðið þá um að færa keppnina af sunnudeginum en ég held að það sé of mikið að biðja um það. Ég myndi elska að fá að vera með á HM en það er sanngjarnast að gefa frá mér sætið,“ sagði Alina McDonald eftir keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×