Fótbolti

Frederik í Val og spilar í fyrsta sinn með ís­lensku fé­lags­liði

Sindri Sverrisson skrifar
Frederik Schram var í íslenska HM-hópnum í Rússlandi 2018, rétt eins og Hólmar Örn Eyjólfsson sem nú verður liðsfélagi hans hjá Val.
Frederik Schram var í íslenska HM-hópnum í Rússlandi 2018, rétt eins og Hólmar Örn Eyjólfsson sem nú verður liðsfélagi hans hjá Val. vísir/vilhelm

Markvörðurinn Frederik Schram hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Vals sem gildir til ársins 2024.

Frederik, sem var til að mynda í HM-hópi íslenska landsliðsins í Rússlandi 2018, kemur til Vals frá Lyngby þar sem hann lék undir stjórn Freys Alexanderssonar er liðið vann sig upp í dönsku úrvalsdeildina í sumar.

Frederik, sem er 27 ára gamall, mun keppa við Hollendinginn Guy Smit um byrjunarliðssæti hjá Val en Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, hefur þó bent á að Smit glími við meiðsli í vinstri fæti og geti ekki sparkað í boltann með fætinum. Smit var fenginn til Vals eftir síðasta tímabil í stað Hannesar Þórs Halldórssonar.

Frederik hefur verið á mála hjá Lyngby síðustu ár en að mestu vermt varamannabekkinn hjá liðinu. Hann hefur áður verið á mála hjá SönderjyskE, Roskilde og Vestsjælland í Danmörku en aldrei spilað með íslensku félagsliði.

Frederik, sem á íslenska móður en danskan föður, hefur alla tíð búið í Danmörku en flyst nú til Íslands. Hann hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Ísland, þann fyrsta árið 2017 en þann síðasta árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×