
Í frétt AP um málið er greint frá því að í Assam-fylki í Indlandi séu að minnsta kosti 9 látnir og að meira en tvær milljónir manna hafi misst heimili sín undir flóðin.
Sanjay O’Neil, starfsmaður við veðurathugunarstöð í höfuðborg Assam-fylkis, segir úrkomumagnið fordæmalaust og býst við mikilli rigningu út sunnudag.
Þá hefur fjöldi lestarfyrirtækja aflýst ferðum á Indlandi vegna linnulausra rigninga undanfarna fimm daga. Indverski herinn hefur verið kallaður út til að bregðast við hamförunum og ferðast hermenn á milli bæja á hraðbátum og björgunarflekum.
Bangladess í mikilli hættu
Í Bangladess hefur vatnsyfirborðið hækkað í öllum stærstu ám landsins, samkvæmt miðstöð flóðavarna í höfuðborginni Dhaka. Þá hefur flugum til og frá Osmani-flugvelli, alþjóðlegum flugvelli, í borginni Sylhet verið aflýst undanfarna þrjá daga.
Það er ekki nema mánuður síðan að Bangladesh-búar urðu fyrir flóðum sem áttu sér stað í norður- og norðausturhluta landsins. Þar varð gríðarlegur fjöldi plantekra, vega og heimila fyrir barðinu á skyndiflóðum í undanfara monsún-tímabilsins.

Bangladess er í mikilli hættu vegna náttúruhamfara á borð við flóð og fellibyli sökum þess hve láglent landið er.
Samkvæmt Milliríkjapanel Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. U.N.’s Intergovernmental Panel on Climate Change) mun um 17% Bangladess-íbúa þurfa að yfirgefa heimili sín næsta áratuginn ef hnattræn hlýnun heldur áfram á sama hraða.