Erlent

Sviss­lendingar loka loft­helginni vegna tölvu­bilunar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá flugvellinum í Zürich í nótt.
Frá flugvellinum í Zürich í nótt. EPA

Flugmálayfirvöld í Sviss lokuðu lofthelgi landsins tímabundið vegna tölvubilunar í nótt og hefur flugferðum til og frá flugvöllum í landinu verið aflýst.

Greint var frá þessu í nótt eftir að fréttir bárust af því að öll flugumferð til og frá Genf og Zürich hafði verið stöðvuð.

Svissneska flugumferðarstjórnarsíðan Skyguide segir að tæknibilun skömmu eftir miðnætti hafi leitt til þess að lofthelginni hafi verið lokað af öryggisástæðum. Einhverjum flugum á leið til Sviss var beint til Mílanó á Ítalíu vegna þessa.

Talsmaður Skyguide segir í samtali við svissneska fjölmiðla að talið sé að um bilun í tölvubúnaði sé að ræða og að ekki sé talið að um árás hafi verið að ræða. Unnið sé að viðgerð.

Flug til og frá alþjóðaflugvellinum Basel-Mulhouse héldu áfram líkt og venjulega þar sem flugvöllurinn er í Frakklandi og franskri lofthelgi, þó að borgin Basel sé í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×