„Þetta er auðvitað mjög óeðlilegt ástand. Við sjáum það að lítraverðið hefur bara farið daghækkandi núna undanfarið og við höfum aldrei séð svona verð áður. Það má heldur ekki gleyma því að þetta hefur veruleg áhrif á vísitöluna og þar með allar skuldbindingar fólks,“ sagði Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þegar fréttastofa tók saman bensínverð í dag kostaði lítrinn á N1 325,9 krónur en þegar fréttamaður okkar mætti á N1 Hringbraut til að ræða við Runólf í beinni útsendingu hafði lítraverðið hækkað upp í 328,9 krónur. Runólfur segir ljóst hvað þurfi að gera í málinu.
![](https://www.visir.is/i/09EFC23917BD30E849D6A196037E91C79A0E0AE2E8EDB80EB3DAECB431AF50DA_713x0.jpg)
„Það er ósköp ljóst að okkar mati að það þarf að gera eitthvað á þessum tímapunkti og það hefur verið gert áður. Mörg stjórnvöld í kring um okkur eru að gera það,“ segir Runólfur.
Hann segir að stjórnvöld hafi ekki brugðist beint við kalli FÍB.
„Nei, í rauninni bara óformlega í gegn um fjölmiðla og þá hefur þessu verið ruglað saman við kolefnisútlosun og eitthvað slíkt en þarna er auðvitað brennandi þörf til að grípa til aðgerða og auðvitað kemur þetta sérlega illa niður á þeim sem hafa minna á milli handanna og líka á þeim sem hafa um lengri veg að fara, til dæmis til að sækja þjónustu eða vinnu,“ segir Runólfur.
Hann segir rök stjórnvalda um að bensínverð sé svo hátt vegna kolefnisskatts ekki standast.
„Það hafa verið ein af rökunum en nú hefur verið óeðlilegt ástand. Við erum að sjá að lítraverðið hefur hækkað um fimmtíu prósent á heimsmarkaði frá því að átökin í Úkraínu hófust og hefur hækkað um 100 prósent ef við förum eitt ár aftur í tímann þannig að þetta er mjög óeðlilegt ástand,“ segir Runólfur.
„Við ráðum ekki heimsmarkaðsverðinu en við ráðum sköttunum sem er helmingurinn af útsöluverðinu, þessum 328,9 krónum.“