„Lifi konungurinn“ hrópaði fólkið sem var samankomið við Siglingaklúbbinn í Sanxenxo á Norður-Spáni í gær þegar Jóhann Karl, fyrrverandi konungur Spánar, kom þangað til að fylgjast með stærstu siglingakeppni Spánar. Þar með sneri konungurinn fyrrverandi heim úr nær 2ja ára sjálfskipaðri útlegð, en hann flúði land og fór til Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þegar opinber sakamálarannsókn hófst gegn honum fyrir meinta mútuþægni, peningaþvætti og skattsvik.
Rannsókn á misferli konungs felld niður
Þessar rannsóknir voru felldar niður fyrir tveimur mánuðum, ekki af því að hann var saklaus, heldur af því að nánast ómögulegt verður að draga hann fyrir dóm þar sem hann braut af sér sem konungur og því nýtur hann friðhelgi.
Og þar með getur hann óhræddur snúið aftur til Spánar. En það eru langt í frá allir Spánverjar jafn ánægðir með endurkomu konungsins aldna. Þingmenn vinstri flokkanna drógu hvergi af sér, kölluðu Jóhann Karl samviskulausan og spilltan þjóf og mörgum finnst ósvífið að hann snúi aftur til Spánar án þess að veita neinar útskýringar á framferði sínu eða biðja þjóðina afsökunar, eins og reyndar nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sagt skorinort í fjölmiðlum í aðdraganda heimsóknarinnar.
Þjóðin klofin í afstöðu sinni til konungsins
Það er óhætt að segja að spænska þjóðin sé klofin í tvennt gagnvart Jóhanni Karli, á tvo mismunandi vegu. Fjölmiðlar á vinstri vængnum, rétt eins og stjórnmálamenn, fara hörðum orðum um hinn fyrrverandi konung, en hægri miðlar og þingmenn hægri flokkanna segja að manninum sé frjálst að ferðast að vild, öllum rannsóknum hafi verið hætt og því skuldi hann engum neitt.
Svo má líka segja að þjóðin skiptist eftir aldri, eldri kynslóðir minna á að konungurinn eigi ríkan þátt í því að lýðræði komst á á Spáni, þegar hann hafi hindrað valdarán hersins árið 1981. Yngri kynslóðir muna eða þekkja þetta síður og leggja meiri áherslu á að hann hafi hegðað sér með ósæmilegum og glæpsamlegum hætti.
Hvað sem því líður, þá er konungurinn aldni í heimsókn á Spáni um helgina. Hann heimsækir son sinn, Filippus VI, í konungshöllina í Madrid á mánudag. Þar fær hann þó ekki að gista og að heimsókn lokinni heldur hann aftur í sína sjálfskipuðu útlegð til Abú Dabí þar sem allt útlit er fyrir að hann verji síðustu árum ævi sinnar.