„Hér er síðan stórt atriði. Þetta er á 43. mínútu. Finnur Tómas er hér með skot og Pálmi Rafn Pálmason er ekki rangstæður þegar þetta skot ríður af. Markið fær að standa,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar.
„Dómararnir, að lokum, dæma markið af, vegna þess að þeir telja að boltinn hafi farið hér í Atla Sigurjónsson,“ sagði Guðmundur
„Ég bara get ekki séð það,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar.
„Boltinn skoppar þarna á grasinu en það er ómögulegt fyrir okkur að fullyrða það,“ sagði Guðmundur.
„Það er smá kraftur í þessu skoti. Miðað við það hvernig Atli fer upp með hælinn og ef að þetta hafi átt að snerta hann þá held ég að boltinn myndi lyftast hærra upp. Ég myndi alltaf veðja á það að þetta ætti að vera mark,“ sagði Albert.
„Þetta var mark. Elías dæmdi mark fyrst. Hann stendur þarna og KR-liðið fagnar þessu marki. Elías fer eitthvað að íhuga málið og ræðir hér við mann og annan. Biður KA-menn að fara frá meðan hann ræðir þetta við aðstoðardómarann sinn,“ sagði Guðmundur.
„Það virðist vera sem svo að aðstoðardómarinn hjálpi Elíasi að taka ákvörðun um það að það hafi verið snerting þarna á boltann,“ sagði Guðmundur.
„Kannski voru þeir að tala við Rikka G líka því hann virtist sjá þetta líka,“ sagði Albert léttur.
Það má sjá þetta mark frá nokkrum sjónarhornum og umræðu Stúkunnar hér fyrir neðan.