Þeir tóku sex karlmenn úr mismunandi fjölskyldum, sögðu fjölskyldum þeirra að bíða við hús sín og leiddu mennina að þorpsmörkunum þar sem þeir skutu þá.
Svona lýsir kona úr litlum bæ nærri borginni Chernihiv því sem gerðist þar á allra fyrstu dögum innrásarinnar eftir að Rússar höfðu náð stjórn á svæðinu. Aftaka mannanna sex segir hún hafa verið algerlega tilhæfulausa – þeir voru almennir borgarar.
Hún lýsir atvikinu í samtali við alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, eða Mannréttindavaktin, sem hefur síðustu daga tekið viðtöl við íbúa þeirra svæða í Úkraínu sem Rússar hafa stjórnað. Rússneski herinn hefur horfið frá stóru svæði í norðri og virðist ætla að einbeita sér að austurhluta landsins.

Samtökin segja herinn hafa skilið eftir sig slóð hörmunga og greinilegra dæma um stríðsglæpi. Þannig hafi samtökin rætt við íbúa í norðrinu sem lýsi nokkrir því að hafa orðið vitni tilhæfulausum aftökum á almennum borgurum, nauðgunum og jafnvel drápum á börnum og mæðrum þeirra.
Hreinsun og hjálparstarf standa nú yfir á þessum svæðum sem Úkraínumenn hafa náð aftur á sitt vald.
Úkraínumenn beina reiði sinni að rússneskum almenningi
Rætt var við Karl Júlíusson, starfsmann Alþjóða-Rauða krossins í Sprengisandi í morgun. Hann var nýkominn frá Úkraínu eftir þriggja vikna dvöl þar og lýsti því hvernig andúð Úkraínumanna á Rússum hefur farið vaxandi.
„Maður upplifir mjög sterkt þetta - ég ætla ekki að segja hatur - en þessar sterku tilfinningar í garð Rússa og rússnesks almennings í sjálfu sér,“ sagði Karl.
Hann sagði þannig Úkraínumenn ekki aðeins beina andúð sinni gegn rússneskum stjórnvöldum, eins og flestir Vesturlandabúar.
„Þegar fólk er þarna í miðju stríði að missa ættingja og vini og annað að þá að sjálfsögðu verða tilfinningar mjög svona beittari,“ sagði Karl.