Handbolti

Bjarki markahæstur í tapi | Lærisveinar Aðalsteins fóru á flug í síðari hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í dag.
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í dag. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Íslendingar voru í eldlínunni í tveimur leikjum í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta sem fram fóru í dag. Bjarki Már Elísson var markahæsti maður liðsins er Lemgo tapaði gegn Wisla Plock, 31-28, og Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten unnu sex marka sigur gegn Sävehof, 32-26.

Jafnræði var með liðunum í leik Lemgo og Wisla Plock og liðin skiptust á að hafa forystuna. Gestirnir í Wisla Plock náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, en það voru þó heimamenn í Lemgo sem leiddu í hálfleik, 15-13.

Bjarki og félagar héldu forystunni fyrstu mínútur síðari hálfleiks, en gestirnir komust yfir í stöðunni 21-20 og litu aldrei um öxl eftir það. Wisla Plock vann að lokum þriggja marka sigur, 31-28 og fer því með þriggja marka forystu í síðari leik liðanna sem fer fram í Póllandi að viku liðinni.

Þá unnu Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten öruggan sex marka sigur gegn Sävehof, 32-26. Sävehof hafði eins marks forystu í hálfleik í stöðunni 14-13, en heimamenn í Kadetten skoruðu 11 af fyrstu 13 mörkum síðari hálfleiksins og unnu að lokum góðan sigur.

Kadetten og Sävehof mætast einnig að viku liðinni í síðari leik liðanna þar sem Aðalsteinn og lærisveinar hans eru í góðri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×