Nú þegar fjórða vika innrásar Rússa í Úkraínu er hafin er augljóst að henni hefur lítið miðað áfram síðustu vikuna. Fullyrt er að yfir sjö þúsund Rússar hafi fallið í innrásinni, að minnsta kosti annar eins fjöldi særst og Úkraínumenn hafi grandað töluverðum fjölda skriðdreka, flugvéla og annars búnaðar.

Andrei Kozyrev sem var utanríkisráðherra Rússlands í forsetatíð Borisar Yeltsin segir Úkraínumenn þegar komna í gagnsókn á sumum stöðum.
„Það er ekki leið fyrir Rússland eða öllu heldur Putin til að vinna þetta stríð. Það er bara spurning hve fljótlega kemur að því að Úkraínumenn nái yfirhöndinni," segir Kozyrev.
Rússar gera þó enn stórskotaliðs-, eldflauga- og loftárásir á borgir og bæi í Úkraínu. Þeir vörpuðu sprengjum á viðhaldsskýli fyrir flugvélar skammt frá flugvellinum í borginni Lviv sjötíu kílómetrum frá pólsku landamærunum í morgun. Flóttmenn hafa lang flestir viðkomu í borginni á leið sinni vestur yfir landamærin.
Að minnsta kosti einn lést þegar fjölbýlishús stórskemmdist í sprengjuárás í Kænugarði í morgun. Fjöldi fólks særðist og ástandið er enn ömurlegt í Mariupol. Talsamður rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að hersveitum hins svo kallaða alþýðulýðveldis Luhansk hafi tekist með aðstoð rússneskra hermanna að þrengja umsátur sitt um borgina.

Viðbrögð Putins að undanförnu benda til að hann sé farinn að örvænta. Í gær sagði hann Vesturlönd reyna að kljúfa rússnesku þjóðina með undirróðri, en undirróður var sérgrein hans sjálfs hjá KGB og hann hefur beitt þeim aðferðum lyga og hálfsannleiks blygðunarlaust í stjórnartíð sinni. Þeir sem taka undir með Vesturlöndum eiga hins vegar ekki von á góðu.
„Allir og sérstaklega Rússar geta ætíð gert greinarmun á sönnum föðurlandsvinum og svikurum og hrakmennum og hrækja þeim út úr sér eins og flugu sem af slysni flaug upp í munninn. Ég er sannfærður um að að slík náttúruleg og nauðsynleg hreinsun á samfélaginu muni aðeins styrkja landið okkar," sagði Putin með tilþrifum.
Andrei Kozyrev segir Vesturlönd ekki meiga hvika eða sýna veikleikamerki í stuðningi sínum við Úkraínumenn af ótta við að Putin beiti kjarnorkuvopnum. Þótt hann væri brjálaður muni hann ekki fórna sjálfum sér með því að hefja kjarnorkustríð.
„En ef Vesturlönd hvika og sýna ótta mun hann sennilega grípa til efnavopna. Þannig að sýnið engan bilbug á ykkur," segir utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Úkraínuforseti og fleiri hafa sagt að best leiðin til að komast að áformum Rússa væri að hlusta á ásakanir þeirra gagnvart öðrum. Þess vegna væri ástæða til að hafa áhyggjur af öllu tali þeirra um efnavopn sem Úkraínumenn ættu ekki og myndu aldrei beita.
Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands sagði einmitt í dag að Bandaríkjastjórn hefði komið fyrir rannsóknarstofum fyrir efnavopn á um þrjú hundruð stöðum í heiminum.
„Margar þeirra eru í fyrrverandi sovétlýðveldum í nágrenni Rússlands. Þar með talið í Úkraínu sem er sennilega stærsta verkefni bandaríska varnarmálaráðuneytisins," sagði Lavrov. Rússar muni áskilja sér allan rétt til að gera út um farartæki sem grunur léki á að væru að flytja efnavopn.
Andrei Kozyrev segir Lavrov eins og aðra embættismenn í Rússlandi algerlega valdalausan og hann ætti allt sitt undir Putin. Rússneskir embættismenn sem breiddu út lygar Putins væru sjálfum sér og rússnesku þjóðinni til skammar og væru að valda henni langvarandi tjóni. Þeir ættu allir með tölu að sýna sóma sinn í að segja af sér.