Minnst 35 eru látnir og 134 særðir eftir loftárás rússneska hersins á herstöð Úkraínumanna skammt frá landamærum Póllands. Rússar virðast nú beina sjónum sínum að því að loka fyrir aðstoð NATO-ríkjanna til Úkraínumanna.
Loftárásin var gerð snemma í morgun en að sögn erlendra miðla virðist þetta vera í fyrsta skipti frá innrás Rússa sem ráðist er á svæði svo vestarlega í Úkraínu.
Herstöðin er í aðeins 25 kílómetra fjarlægð frá landamærum Póllands, sem er eitt NATO-ríkjanna, en hún hefur í gegn um tíðina verið notuð við herþjálfun sem ýmis NATO-ríki hafa komið að.
„Þessi árás í nótt hún þýðir stigmögnun átakanna sem kannski þarf ekki að koma á óvart. Nú eru átökin að færast í vesturátt að landamærum Úkraínu í vestri,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Munu ráðast á birgðaflutningavélar NATO-ríkja
Birgðaflutningar NATO-ríkjanna til Úkraínumanna hafa auðvitað komið í gegn um vesturhlutann.
Rússar hafa gefið það út síðustu daga að þeir muni beina spjótum sínum að birgðaflutningunum og varað NATO-ríkin við því að flutningavélar þeirra til Úkraínu gætu verið skotnar niður.
Baldur telur ekki að þetta muni hafa áhrif á afstöðu NATO-ríkjanna til átakanna.
„Svo lengi sem rússneski herinn heldur sig frá því að senda sprengjur yfir landamærin og inn í NATO-ríki þá held ég að þetta leiði ekki til stigmögnunar átakanna á milli annars vegar NATO og hins vegar rússneska hersins,“ segir Baldur
Hann segir NATO fullmeðvitað um að ef það myndi fara að blanda sér með beinum hætti inn í stríðsátökin myndi það hafa í för með sér allsherjarstríð milli Rússlands og NATO.
Fréttastofa fylgist grannt með gangi mála í vaktinni hér að neðan:
Eintómar hótanir í Sýrlandi
Forseti Póllands sagði nýverið að ef Rússar færu að beita efnavopnum í Úkraínu þyrfti NATO að endurhugsa afstöðu sína.
Baldur efast þó um að það hefði áhrif.
„Það sýndi sig sko að NATO og Bandaríkin sögðust ætla að bregðast við efnavopnum í Sýrlandi. Þau sögðust ætla að bregðast við en gerðu ekkert. Ég sé ekki endilega að þeir muni frekar eitthvað bregðast við í Úkraínu,“ segir hann.