Rússar halda sókn sinni áfram í Kænugarði en varnamálaráðuneyti Bretlands greindi frá því í uppfærslu í morgun að meirihluti herliðs Rússa væri um 25 kílómetra frá miðborg Kænugarðs. Átök áttu sér stað norðvestur af Kænugarði nú í morgunsárið.
Svo virðist sem að stór hluti herliðsins sem sást norður við Kænugarð í gær hafi tvístrast og telur ráðuneytið það til marks um að rússneskar hersveitir ætli sér að umkringja borgina. Þó er einnig mögulegt að Rússar óttist gagnárás.
Utan Kænugarðs eiga sér nú átök stað víða, til að mynda í Kharkív, Tsjernihiv, Sumy og Mariupol. Í Mariupol vörpuðu rússneskar hersveitir sprengjum á mosku þar sem um áttatíu manns höfðu leitað sér skjóls, flestir þeirra Tyrkir.
Í bæjunum Vasylkic og Kryachky nálægt Kænugarði komu upp eldsvoðar í olíubirgðarstöðvum eftir árásir Rússa og í bænum Kvitneve kviknaði sömuleiðis í frystivöruhúsi. Flugherstöð við Vasylkic eyðilagðist við sprengingar.
Iryna Vereshchuk, starfandi forsætisráðherra Úkraínu, segir vonir bundnar við það að hægt verði að koma upp öruggum flóttaleiðum víðsvegar um Úkraínu, meðal annars úr Mariupol en illa hefur gengið að flytja fólk þaðan og hafa allar tilraunir mistekist vegna árása Rússa.
Þá verða fleiri flóttaleiðir við Kænugarð að því er kemur fram í frétt Reuters en yfirvöld í borginni segja Rússa ekki hafa dregið úr árásum sínum sem gerir þeim erfitt fyrir. Yfirvöld í Rússlandi neita því alfarið að almennir borgarar séu skotmark þeirra. Rúmlega 2,5 milljónir manna hafa þurft að flýja Úkraínu vegna stríðsins.
Við fylgjumst vel með stöðu mála í vaktinni á Vísi í dag.