Innlent

Bene­dikt nýr fram­kvæmda­stjóri hjá Orku­veitunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benedikt færir sig um set og er kominn til starfa hjá Orkuveitunni.
Benedikt færir sig um set og er kominn til starfa hjá Orkuveitunni. Aðsend

Benedikt K. Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur og hefur störf síðar í mánuðinum. Hann lætur um leið af störfum sem ráðgjafi hjá KPMG. Svanbjörn Thoroddsen tekur við stöðu hans hjá KPMG.

Benedikt starfaði hjá KPMG frá árinu 2001, á meðal eigenda frá árinu 2008 og sat í stjórn fyrirtækisins á árunum 2009 til 2013. Benedikt hefur setið í framkvæmdastjórn og verið sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG frá árinu 2013.

Benedikt er með M.Sc. próf í fjármálum frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu af hvoru tveggja fjármála- og rekstrarráðgjöf sem og af stafrænni umbreytingu fyrirtækja.

„Víðtæk reynsla Benedikts sem starfað hefur við ráðgjöf hjá KPMG síðustu tuttugu árin mun koma til með að nýtast Orkuveitu Reykjavíkur afar vel og ég býð hann velkominn til starfa,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, í tilkynningu.

Benedikt segir spennandi að koma til starfa hjá Orkuveitunni.

„Starfsemin hefur mikil áhrif hér á landi og leikur m.a. stórt hlutverk í sjálfbærri þróun samfélagsins, s.s. í orkuskiptum og loftslagsmálum. Ég hlakka til að kynnast starfseminni enn frekar og starfa með öflugum hópi í þeim áhugaverðu verkefnum sem eru framundan.“

Svanbjörn Thoroddsen færir sig til innan KPMG.

Svanbjörn Thoroddsen tekur við starfi Benedikt sem nýr sviðsstjóri hjá KMPG.

„Svanbjörn hefur verið ráðgjafi hjá KPMG frá 2009 og var stjórnarformaður félagsins 2015-2020. Áður en hann hóf störf hjá KPMG hafði hann verið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Straums fjárfestingarbanka á Íslandi, forstjóri Flögu og framkvæmdastjóri hjá FBA og Íslandsbanka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×