Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þrjú skip Brims liggja bundin við bryggju í Sundahöfn. Jón Heiðar Hannesson, yfirvélstjóri á Venusi NS, var þar ásamt skipsfélögum að dytta að skipinu.
„Við erum að viðhalda bara, skipta um slöngur og smyrja.“

Venus, Svanur og Víkingur sneru öll í land í síðustu viku, ásamt meirihluta íslenska loðnuflotans, þegar Hafrannsóknastofnun varaði við því að skerða þyrfti loðnukvótann.
„Auðvitað erum við fúlir að hafa hætt að veiða. Viljum alltaf vera að. Það er best svoleiðis.“
-Þið eruð enn að bíða eftir að komast af stað?
„Við bíðum bara eftir kallinu. Það verður um helgina, held ég, - fyrir eða eftir hana,“ svarar Jón Heiðar.
Næstu daga munu allra augu í uppsjávargeiranum beinast að hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, sem á sjötta tímanum sigldi úr Hafnarfirði áleiðis á Vestfjarðamið til loðnuleitar á svæði sem áður var hulið hafís. Hér má fylgjast með leitarferli skipsins.

Kristján H. Kristinsson, skipstjóri á Árna Friðrikssyni, áætlar að vera að minnsta kosti fjóra til fimm daga í leiðangrinum. Hann segir veðurútlit gott næstu daga en síðan gæti farið að bræla. Hann segir hafísinn hafa færst lengra frá Vestfjörðum í norðaustanáttinni en gerir þó ráð fyrir að ísinn muni eitthvað plaga þá.
Niðurstaðna loðnumælinganna er að vænta eftir um það bil viku. Þær munu ráða því hvort flotinn fái að veiða þau 360 þúsund tonn, sem enn eru óveidd af útgefnum kvóta, eða sæta allt að 100 þúsund tonna skerðingu. Afli íslensku skipanna það sem af er vertíð er kominn í 300 þúsund tonn.

Mikið er í húfi því búast má við að loðnan fari að hrygna í fyrrihluta marsmánaðar. Í hafinu gætu enn beðið 40-50 milljarða króna verðmæti, sem loðnuflotinn fær kannski fjögurra vikna glugga til að sækja.
Loðnusjómönnunum finnst að minnsta kosti að þeir skipti máli fyrir þjóðarbúið.
„Jú, auðvitað. Að halda þessu gangandi öllu saman.“
-Það eruð þið sem gerið það?
„Já, já. Höldum spítulunum gangandi,“ svarar yfirvélstjórinn á Venusi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: