Erlent

Fimm nánir aðstoðarmenn Borisar segja upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Jessica Tayolor

Fjórir háttsettir starfsmenn forsætisráðuneytis Bretlands hafa sagt upp störfum í kjölfar þess að bráðabirgðaniðurstöður skýrslu um partíhald að Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana voru birtar. Þar á meðal eru starfsmannastjóri ráðuneytisins og einkaritari Borisar Johnson, forsætisráðherra.

Þar að auki hafa tveir ráðgjafar ráðherrans sagt upp en uppsagnir gærdagsins fylgdu á hæla ummæla Johnsons um að Keir Starmer, leiðtogir Verkamannaflokksins, hefði mistekist að lögsækja barnaníðinginn Jimmy Savile.

Þar um gamla og ósanna sögu að ræða, samkvæmt frétt Sky News, og hefur forsætisráðherrann verið harðlega gagnrýndur fyrir ummælin. Meðal annars af Rishi Sunak, fjármálaráðherra, sem er af mörgum talinn geta tekið við af Johnson sem leiðtogi Íhaldsflokksins.

Fimmta uppsögnin bættist við í morgun en þá sagði Elena Narozanski, ráðgjafi forsætisráðherrans í málefnum jafnræðis, störfum sínum upp, samkvæmt frétt Guardian.

Greg Hands, orkumálaráðherra, segir uppsagnirnar til marks um það Johnson sé að taka í stjórnartaumana á Downingstræti. Hann sagði Johnson vera að standa við það sem hann sagði í kjölfar birtingar bráðabirgðaniðurstaðna að hann myndi breyta stjórnunarháttum sínum.

Einn ráðgjafi forsætisráðherrans sagði þó í uppsagnarbréfi sínu að hún væri að hætta vegna ummæla Johnsons um Starmer og Savile. Hands viðurkenndi að uppsögn hennar væri frábrugðin hinum.


Tengdar fréttir

Veita full­vissu um að skýrslan verði birt í heild sinni

Talsmenn Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hafa nú fullvissað þingmenn Íhaldsflokksins um að skýrsla Sue Gray, sem rannsakaði partýstand á ríkisstjórninni og starfsmönnum Downingstrætis 10 á tímum kórónuveirunnar, verði birt í heild sinni að lokinni lögreglurannsókn.

Enn bætist á vandræði Borisar

Vandræði Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, virðast engan enda ætla að taka. Ný-opinberaðir tölvupóstar sína að hann heimilaði brottflutning gæludýra frá Afganistan í fyrra persónulega, sem forsætisráðherrann hafði áður sagt að væri „þvættingur“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×