Sport

Marcelo sigursælasti leikmaður Real Madrid frá upphafi

Atli Arason skrifar
Marcelo með 23. bikarinn
Marcelo með 23. bikarinn Twitter/BRfootball

Marcelo jafnaði í gærkvöld met Spánverjans Paco Gento sem sigursælasti leikmaður Real Madrid frá upphafi.

Báðir hafa þeir unnið 23 bikara með liðinu en það er meira en nokkur öðrum leikmanni í fótboltasögunni hefur tekist að gera í treyju Real Madrid. Marcelo jafnaði met Gento þegar Real Madrid sigraði Athletic Bilbao, 2-0, í leik um spænska ofurbikarinn í gær.

Marcelo hefur nú unnið spænska ofurbikarinn fimm sinnum með Real Madrid, spænska Copa del Rey bikarinn tvisvar, spænsku LaLiga deildina fimm sinnum, fjóra meistaradeildar titla, þrjá evrópska ofurbikara og fjórum sinnum hefur hann orðið heimsmeistari félagsliða með Real Madrid.

Marcelo hefur leikið með Real Madrid nánast allan sinn ferill eða síðan árið 2007. Þetta er því 16. tímabil Marcelo með liðinu en enginn leikmaður sem ekki hefur spænskt vegabréf hefur samfleytt verið jafn lengi hjá Real Madrid. Marcelo hefur leikið 536 leiki fyrir félagið en aðeins 13 leikmenn hafa spilað fleiri leiki fyrir Real í sögu þessa sigursæla félags.

Paco Gento, sá leikmaður sem Marcelo jafnaði af fjölda titla, lék með Real Madrid á árunum 1953-1971. Sergio Ramos er í þriðja sæti yfir sigursælustu leikmenn félagsins með 22 bikara og Manolo Sanchis er í því fjórða með 21 bikar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×