Erlent

Vonast til þess að Bretar standist áhlaupið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson er forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson er forsætisráðherra Bretlands. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vonast til þess að Bretar geti staðist núverandi áhlaup kórónuveirufaraldursins vegna ómíkronafbrigðisins, án þess að grípa þurfi til frekari samkomutakmarkana.

Líkt og víða annars staðar er faraldurinn á töluverði siglingu í Bretlandi. Yfir tvö hundruð þúsund greindust með Covid-19 í Bretlandi í gær, en hafa skal þó í huga að inn í þessum tölum voru nokkurra daga gömul áður ótalin tilfelli í Wales og Norður-Írlandi.

Johnson mun ræða um hvort þörf sé á frekari viðbrögðum í Bretlandi við ráðherra í ríkisstjórn hans á morgun. Í frétt BBC segir að Johnson telji góðar líkur á því að ekki þurfi að herða samkomutakmörk eða aðgerðir umfram það sem nú er í gildi.

Aðgerðirnar sem eru í gildi í Bretlandi kveða á um að þeir sem geti unnið heima frá sér geri það, bera þurfi grímu í flestum tilvikum á almennum svæðum, ásamt ýmsu öðru. Aðgerðirnar eru í gildi til 28. janúar næstkomandi.

Þrátt fyrir að Johnson reikni með að næstu vikur muni vera krefjandi fyrir breska heilbrigðiskerfið hefur hann trú á því að Bretar geti staðist áhlaupið. Til að liðka fyrir því munu 100 þúsund starfsmenn sem skilgreindir hafa verið sem lykilstarfsmenn þurfa að undirgangast dagleg Covid-próf.

Er þar um að ræða starfsmenn sem vinna meðal annars í matvælaiðnaði, landamæragæslu og vöruflutningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×