Lögreglan klæddi mennina í sérstaka hlífðargalla og labbaði með þá um götur borgarinnar Jingxi í Guangxi héraði í Kína. Þeir voru einnig látnir halda á myndum af sér á meðan smánuninni stóð, þar sem nöfn sóttvarnabrjótanna komu fram. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Uppátækið hlaut blendin viðbrögð meðal almennings en mikil umræða fór fram á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Netverjar sögðu margir hverjir að uppátækið minnti þá á hina ævafornu og úreltu opinberu smánun á meðan aðrir töldu refsinguna réttlætanlega.
Kínverjar hafa gripið til harðra aðgerða vegna útbreiðslu faraldursins síðustu daga en ráðamenn í Kína settu þrettán milljón íbúa borgarinnar Xi’an í útgöngubann í síðustu viku. Þar höfðu 211 greinst smitaðir á undanfarinni viku.