Innlent

Maðurinn fannst heill á húfi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi leitarinnar í Elliðaárdal.
Frá vettvangi leitarinnar í Elliðaárdal. Vísir/Sigurjón

Uppfært: Maðurinn sem lögregla og björgunarsveitir leituðu að í kvöld fannst heill á húfi á áttunda tímanum í kvöld. Fréttina um leitina má lesa hér að neðan:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir aðstoð björgunarsveita við leit að manni sem nú stendur yfir í Elliðaárdal í Reykjavík.

Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni á Vínlandsleið, í samtali við fréttastofu. Hún kvaðst ekki geta gefið nánari upplýsingar um leitina að svo stöddu.

Í tilkynningu frá lögreglu sem fréttastofu barst rétt í þessu er lýst eftir manninum. Hann er sagður illa áttaður, mjög klæðalítill og líklegast aðeins í svörtu, ermalausu vesti. Hann er talinn um 180 sentimetrar á hæð, grannvaxinn og krúnurakaður. 

„Hann gæti verið í Elliðarárdal og eða nærumhverfi. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til leitar. Ef einhverjir hafa orðið varir við klæðalítinn mann í svörtu ermalausu vesti á þessum slóðum eða vita hvar hann er að finna eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa tafarlaust samban við lögreglu í síma 112,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafultrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að útkall hafi borist björgunarsveitum upp úr klukkan þrjú. Um hundrað björgunarsveitarmenn aðstoði lögreglu nú við leitina. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×