Hamilton mætti ekki á verðlaunahátíðina í mótmælaskyni, en honum og liðsfélögum hans í Mercedes þótti framkvæmd kappakstursins í Abu Dhabi vafasöm svo ekki sé meira sagt. Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, var einnig hvergi sjáanlegur.
Samkvæmt lögum og reglum Formúlu 1 ber þremur efstu ökuþórum tímabilsins að mæta á verðlaunahátíðina og forseti FIA segir engann yfir reglurnar hafinn.
„Ef það er eitthvað brot á reglunum þá verður það ekki fyrirgefið,“ sagði Ben Sulayem.
„Ég veit að Lewis var mjög leiður yfir því sem gerðist. Ég myndi jafnvel segja að hann hafi verið niðurbrotinn. En við verðum að skoða hvort að eitthvað brot á reglum hafi átt sér stað.“