Sport

Allir komnir heilu og höldnu til Portúgals eftir maraþonferðalag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hluti íslensku keppendanna stillir sér upp í Leifsstöð.
Hluti íslensku keppendanna stillir sér upp í Leifsstöð. fimleikasamband íslands

Allur hópur íslenska fimleikasambandsins er kominn til Guimares þar sem Evrópumótið í hópfimleikum hefst á morgun.

Ísland sendir fjögur lið til leiks, tvö í fullorðinsflokki, karla- og kvennalið, og tvö í unglingaflokki, kvennalið og blandað lið.

Unglingaliðin komu til Guimares í fyrradag en fullorðinsliðin og restin af íslenska hópnum í gær. Ferðalagið tók sinn tíma; flogið var frá Keflavík til London, frá London til Lissabon og loks Lissabon til Porto.

Keppni í unglingaflokki hefst á morgun og í fullorðinsflokki á fimmtudaginn. Úrslitin í unglingaflokki fara fram á föstudaginn og í fullorðinsflokki á laugardaginn.

Þrjú ár eru síðan EM í hópfimleikum var haldið. Þá fór mótið einnig fram í Portúgal. Halda átti mótið í fyrra en því var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Alls taka 435 keppendur frá fjórtán þjóðum þátt. Lúxemborg er með í fyrsta skipti en EM verður haldið þar á næsta ári.

Vísir er með íslenska hópnum úti í Portúgal og mun flytja fregnir af gangi mála þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×