Innlent

Ráku um fimmtíu gesti út rétt fyrir eitt í nótt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan vísaði gestum staðarins út klukkan að verða eitt í nótt.
Lögreglan vísaði gestum staðarins út klukkan að verða eitt í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af starfsemi veitingastaðar í miðborg Reykjavíkur í nótt vegna brots á sóttvarnalögum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Að því er fram kemur í dagbókarfærslu lögreglunnar voru um fimmtíu manns inni á staðnum þegar lögreglu bar að garði og var þeim gert að yfirgefa staðinn. Samkvæmt núgildandi sóttvarnareglum mega veitingastaðir með vínveitingaleyfi taka á móti fimmtíu manns að hámarki.

Færslan er skráð í dagbók lögreglu klukkan 00:53 í nótt, en veitingastaðir mega aðeins hafa opið til klukkan 22 og verða allir gestir að hafa yfirgefið staðinn klukkan 23. Því má ætla að brot staðarins hafi snúið að reglum um opnunartíma, en af orðalagi dagbókarfærslunnar er ekki unnt að ráða hvort reglum um hámarksfjölda gesta hafi verið fylgt.

Í færslu lögreglunnar kemur ekki fram um hvaða stað er að ræða.

Nokkuð um ölvunarakstur

Lögregla hafði þá í nótt afskipti af sjö ökumönnum sem grunaður voru um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Nóttina þar á undan var einnig nokkuð um akstur undir áhrifum.

Þá var ökumaður bifreiðar í miðborginni stöðvaður á 117 kílómetra hraða á klukkustund, þar sem hámarkshraðinn var 60 kílómetrar. Viðkomandi mældist því á tæplega tvöföldum hámarkshraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×