Rúmlega fjórtán sentímetrar regns féllu við alþjóðaflugvöllinn í Bellingham í Washington frá laugardegi til mánudags. Meðalúrkoma þar í öllum nóvembermánuði er vanalega rúmir þrettán sentímetrar. Úrkoman fylgdi óveðri sem kom af Kyrrahafi og gekk yfir Washington í Bandaríkjunum og Bresku Kólumbíu í Kanada. Meðalvindhraðinn í vestanverðu Washington náði hátt í 27 metrum á sekúndu á mánudag.
Yfirvöld í Bresku Kólumbíu segja að óveðrið sé það versta í heila öld þar. Það kemur aðeins nokkrum mánuðum eftir að fimm hundruð manns létust í methitabylgju í sumar. Heilt fjallaþorp brann meðal annars til grunna í skógar- og gróðureldum sem kviknuðu. Hitamet voru víða slegin með margra gráða mun bæði í Bresku Kólumbíu og sunnan landamæranna í Washington.
Rýma hefur þurft þorp og bæi beggja vegna landamæranna vegna flóðanna. Flætt hefur yfir vegi og rafmagni slegið út, að sögn AP-fréttastofunnar. Í Kanada þurfti meðal annars að bjarga fólki með þyrlu sem varð innlyksa í fjallabæ þegar vegir lokuðust.
Í smábænum Sumas í Washington-ríki í Bandaríkjunum nærri landamærunum að Kanada segja embættismenn tjónið gríðarlegt. Hundruð manna yfirgáfu heimili sín og áætlað er að þrjú af hverjum fjórum íbúðarhúsum hafi orðið fyrir vatnstjóni.

Sumas-áin sem rennur í gegnum Washington og Bresku Kólumbíu í Kanada flæddi yfir bakka sína þannig að björgunarfólk í Abbotsford norðan landamæranna fékk ekki rönd við reist. Þúsundir manna hafa flúið flóð og aurskriður á svæðinu frá því á sunnudagskvöld.
Henry Braun, borgarstjóri í Abbotsford, segir að vegir séu ófærir og það hafi skapað glundroða þegar yfirvöld reyndu að koma fólki undan vatnselgnum.
Tvö stærstu lestarfélög Kanada búast við því að það taki fleiri daga að hreinsa brak af teinum í sunnanverðri Bresku Kólumbíu. Á meðan komast vörur ekki til hafnar í Vancouver, stærstu hafnar Kanada.