Dómur Landsréttar var kveðinn upp klukkan 14 í dag. Önnur árásin var á leigusala hans í júní 2020, konu á fimmtugsaldri, en hin á félaga sinn á þrítugsaldri í apríl sama ár. Þorlákur bar fyrir sig að hafa verið í geðrofi þegar hann réðst á fólkið.
Auk sjö og hálfs árs fangelsisvistar var Þorlákur Fannar í Landsrétti dæmdur til að greiða konunni 4,8 milljónir króna í skaða- og miskabætur og eina og hálfa milljón króna í bætur til hins brotaþolans.
Fórnarlömbin í málunum tengdust ekki en málin voru flutt í framhaldi hvort af öðru í héraðsdómi. Þorlákur Fannar, sem er á 34 ára , á að baki þónokkurn brotaferil og meðal annars fengið átta og sex mánaða fangelsisdóma. Flestir hafa tengst fíkniefnamálum auk þess sem hann hefur verið dæmdur fyrir líkamsárásir.
Árás á leigusala á Langholtsvegi
Árásin á leigusala hans var gerð á Langholtsvegi í Reykjavík. Þorlákur Fannar leigði íbúð af konunni í kjallara hússins og hafði aðeins verið þar í um tvær vikur áður en árásin var gerð.
Hin árásin og frelsissvipting sem Þorlákur var dæmdur fyrir var gegn félaga hans í íbúð í Bríetartúni í Reykjavík í apríl 2019. Þeir félagarnir höfðu verið úti að borða og lýsti brotaþoli því svo að Þorlákur hefði svo bundið sig, lamið með kúbeini og haldið honum föngnum í íbúðinni í rúman hálfan sólarhring.