Erlent

Fleiri líkamshlutar finnast á Grænlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Ilulissat á Grænlandi.
Frá Ilulissat á Grænlandi. Getty/Mario Tama

Lögreglan á Grænlandi fann á laugardaginn líkamshluta við brennslustöð í bænum Ilulissat. Síðan þá hafa fleiri líkamshlutar fundist þar.

Samkvæmt frétt Sermitsiaq veit lögreglan ekki til þess að einhvers sé saknað á svæðinu og hefur hún biðlað eftir upplýsingum frá almenningi. Var það gert eftir að fyrsti líkamshlutinn fannst á laugardaginn. Þá var sömuleiðis kallað eftir hjálp frá lögreglunni í Danmörku.

Lögreglan hefur ekki sagt hvaða líkamshlutar hafa fundist.

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og er enginn grunaður um glæp enn sem komið er. Réttameinafræðingur og aðrir sérfræðingar munu fara frá Danmörku til Grænlands á morgun og aðstoða lögregluna.

Lögreglan óskar enn eftir aðstoð almennings og þá sérstaklega að því hvort fólk hafi séð eitthvað grunsamlegt við grenndargáma eða gámastöðvar þar sem farið er með rusl í síðustu viku. Það rusl er svo brennt í áðurnefndri brennslustöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×