Erlent

Ástralir opna landamærin og hleypa landsmönnum út

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ástralir hafa viðhaft afar strangar takmarkanir.
Ástralir hafa viðhaft afar strangar takmarkanir. AP/Daniel Pockett

Yfirvöld í Ástralíu hafa ákveðið að opna landamæri ríkisins í nóvember næstkomandi en frá því í mars á síðasta ári hafa landsmenn búið við einar ströngustu reglur í heimi þegar kemur að ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Reglurnar hafa gengið svo langt að banna áströlskum ríkisborgurum að yfirgefa landið. 

Aðgerðirnar eru taldar hafa hjálpað til við að stemma stigu við faraldrinum, sem hefur farið nokkuð léttum höndum um Ástrali, en þær hafa einnig verið gagnrýndar harðlega fyrir að stýja fólki í sundur og banna því að heimsækja fjölskyldur sínar erlendis. 

Aðeins í einstaka tilvikum hafa landsmenn fengið leyfi til ferðalaga, ef um bráðnauðsynlegt starf er að ræða eða ef náinn ættingi er á dánarbeðinu. 

Um þrjátíu prósent Ástrala eiga fjölskyldu í öðrum löndum heimsins. 

Scott Morrison forsætisráðherra segir að nú sé kominn tími til að Ástralir fái að lifa eðlilegu lífi á ný. Þó þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Viðkomandi þarf að vera bólusettur, en það sem meira er, ekki verður opnað á ferðalög frá einstaka héröðum landsins, fyrr en bólusetningarhlutfall þess hefur náð 80 prósentum. 

Þá stendur til að stytta dvölina á sóttkvíarhóteli fyrir þá sem á annað borð koma til landsins, en í dag er hún fjórtán dagar, sem ferðamaðurinn greiðir úr eigin vasa. Ekki stendur til að hleypa ferðamönnum strax til Ástralíu, en Morrison segir að unnið sé að því að gera slíkt kleift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×